Tuesday, March 19, 2013

Pælingar #1

Við ákveðum ekki allt sem við gerum. Margt gerist bara umhugsunarlaust. Þegar ég byrja að tala vel ég ekki orðin – þau koma bara. En ég get stoppað mig af ef ég vil.


Ég ákveð samt sumt. Þegar ég hef ákveðið það heldur það bara áfram að gerast og verður vani.




Persónuleikinn minn breytist þegar ég eldist og ég verð fyrir ýmsum áhrifum frá umhverfinu. Sá sem eyðir miklum tíma með fjölskyldu sinni getur orðið sammála henni í flestu á meðan sá sem eyðir miklum tíma einn verður sjálfstæðari. Aldursröð systkina hefur áhrif á persónuleikann.



Þar sem ég breytist með tímanum, bæði í útliti og persónuleika – kemur það fyrir að vaninn sem ég fylgi dags daglega er ekki lýsandi fyrir mig eins og ég er, heldur fyrir manneskjuna sem ég var einhverntíma áður.



Tíminn hættir að vera til ef allt hættir að hreyfast. Hann er aðeins mælikvarði á breytingar. Án breytinga er enginn tími.



Við sköpuðum Guð en ekki hann okkur. Guð gefur okkur auðveld svör við erfiðum spurningum og trúin á hann hjálpar okkur að mæta erfiðleikunum sem fylgja lífinu.




Það er rangt að refsa fólki fyrir að trúa ekki á Guð og það er líka rangt að verðlauna það fyrir að trúa. Flest okkar fermdust vegna þess að okkur fannst við verða að gera það – annarra vegna.